
AÞ-Þrif skipar nú efsta sætið á nýjum lista Great Place To Work á Íslandi yfir Frábæra vinnustaði fyrir konur 2025 í flokki stærri fyrirtækja og er þetta annað árið í röð sem fyrirtækið hlýtur þessa vottun. AÞ-Þrif er þjónustufyrirtæki sem sér um allar almennar hreingerningar hjá fyrirtækjum og stofnunum af öllum stærðum og gerðum; allt frá skólum upp í gagnaver. Fyrirtækið er á meðal þeirra stærstu hér á landi í þessari atvinnugrein og hjá því starfa nú um 250 manns, þar af eru hátt í 70% konur og 90% starfsfólks er af erlendum uppruna og kemur frá yfir 30 þjóðlöndum.
AÞ-Þrif er einnig meðal þeirra efstu á listanum Frábærir vinnustaðir fyrir vellíðan starfsfólks 2025 með 100 starfsmenn eða fleiri. AÞ Þrif leggur mjög mikla áherslu á mannauðsmál og allt kapp er lagt á að standa vel að móttöku starfsfólks, að standa fyrir markvissri nýliðafræðslu og gagnadrifinni mannauðsstjórnun. Flest sem koma til starfa hjá AÞ-Þrifum eru í sínu fyrsta starfi á Íslandi og því er höfuðáhersla lögð á inngildingu sem er lykilþáttur í því að skapa samfélag á jafningjagrundvelli. AÞ Þrif er annað tveggja íslenskra fyrirtækja á lista GPTW yfir bestu vinnustaði í Evrópu og jafnframt eina ræstingarfyrirtækið á þeim lista 2024! Best Small & Medium Workplaces in Europe 2024 | Great Place To Work®
Vinnustaðagreiningar tryggja jafnrétti
Dagbjört Una Helgadóttir, sviðsstjóri mannauðs hjá AÞ Þrifum, segir að í stjórnendastöðum hjá fyrirtækinu séu konur í meirihluta, t.d. séu millistjórnendur átta konur sem allar hafi unnið sig upp innan fyrirtækisins. „Við reynum alltaf að hvetja til innanhússráðninga í stjórnendastöður en eins erum við virk í vinnustaðagreiningum til þess að passa að við séum að tryggja jafnrétti á öllum sviðum og vera stöðugt vakandi fyrir því hvernig við getum gert enn betur,“ segir Dagbjört Una og bætir við: „Að hljóta Great Place To Work vottun og að vera í efsta sæti á listanum Frábærir vinnustaðir fyrir konur er mikill heiður.
Þessar vinnustaðagreiningar GPTW hafa hjálpað okkur mikið og gefa okkur tækifæri til að skoða strúktúrinn, leggja línurnar og setja okkur markmið sem eru byggð á tölum og gögnum. Meðal breytinga frá því við mældum í fyrsta sinn má nefna mikla og aukna ánægju starfsfólk með upplýsingaflæði og fræðslu auk þess sem stolt þeirra af starfinu og vinnustaðnum hefur aukist mikið en við höfum markvisst reynt að upphefja ræstingastarfið út á við.“
Bjarki Þorsteinsson er sviðsstjóri sölu- og þróunar: „Kannanir Great Place To Work eru afar mikilvægar til að taka púlsinn á starfsfólkinu þar sem aðeins um 80 af 250 manna starfsliði mæta í höfuðstöðvarnar, önnur fara beint á sína starfsstöð. Það skiptir miklu máli og er í raun lykilþáttur í starfsánægju hvernig vinnustaðir taka á móti fólkinu okkar. Viðmót fyrirtækja gagnvart ræstingarfólki hefur breyst mikið til hins betra undanfarinn áratug og við metum það mikils. Vellíðan starfsfólks er lykilatriði, að því sé vel tekið inni á vinnustaðnum, ef ekki er það uppskrift að vanlíðan og óánægju sem er vont fyrir alla,“ segir Bjarki.
Árangur AÞ-Þrifa í fræðslumálum
Í kjölfar Covid-faraldurs stóð AÞ Þrif frammi fyrir áskorunum, þar sem há starfsmannavelta og veikindatíðni höfðu áhrif á reksturinn og jafnframt stækkaði fyrirtækið um helming árið 2022 sem olli vaxtarverkjum. Til að takast á við áskoranir í fræðslu- og mannauðsmálum var Dagbjört Una ráðin til starfa. „Við tókum markviss skref í að endurhugsa fræðslustefnuna okkar,“ segir Dagbjört og bætir við: „Helstu áskoranir okkar eru og verða áfram þær að við erum með fólk sem starfar ekki í húsi heldur úti á verkstöðum og erfitt er að ná til allra. Síðan erum við meðvituð um að við erum með starfsfólk af yfir 30 þjóðernum og því fylgja tungumálaáskoranir við fræðslu.“
Vinnustaðagreining 2023 leiddi í ljós þörf á fjölbreyttari og aðgengilegri fræðslu og því var rafræna fræðslukerfið Learncove innleitt sem gerir starfsfólki kleift að nálgast fræðsluefni óháð starfsstöð. Í byrjun árs 2024 bætti fyrirtækið við sig mannauðssérfræðingi til að þróa fræðslumálin enn frekar. Starfsmannasamtöl og helstu áskoranir hverju sinni eru lagðar til grundvallar árlegri fræðsluáætlun sem hefur það markmið að koma til móts við óskir og þarfir starfsfólksins sem og fyrirtækisins.

AÞ-Þrif lítur á það sem sína samfélagslegu ábyrgð að aðstoða starfsfólkið við allt frá íslenskunámi til betri þekkingar á íslensku samfélagi. Nýliðafræðsla hefur verið efld þar sem allt nýtt starfsfólk situr AÞ-skólann og stendur til boða að taka þátt í staðnámskeiðum. Til að tryggja þátttöku starfsfólks sem ekki hefur aðgang að tölvu í vinnu, hefur verið útbúin aðstaða með tölvum og spjaldtölvum sem hægt er að sinna í næðisrými. Jafnframt hefur það aukið skráningar á staðnámskeiðin að hafa t.d. pólskumælandi túlk.
Fyrirtækið stefnir á að þróa sjónrænt fræðsluefni á þessu ári ásamt því að halda áfram að bjóða fjölbreytta fræðslu sem mætir vel þörfum starfsfólksins. „Við erum sannfærð um að með markvissum aðgerðum í fræðslumálum náum við að bæta enn frekar starfsánægju og þar með árangur fyrirtækisins. Fræðsla hefur keðjuverkandi áhrif og aukin starfsánægja hefur leitt af sér stórkostleg áhrif á reksturinn með minni starfsmannaveltu og lægri veikindatíðni,“ segir Dagbjört Una að lokum.



